Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Synjun á undanþágu frá sundkennslu

Ár 2017, miðvikudaginn 5. júlí, var kveðinn upp í mennta- og menningarmálaráðuneytinu svofelldur

 

 

 

ÚRSKURÐUR

 

 

 

Kæruefnið

 

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu barst með tölvubréfi, þann 23. mars 2017, stjórnsýslukæra A og B (hér eftir nefnd kærendur).  Kærð er sú ákvörðun skólastjóra  [grunnskólans] X að hafna beiðni kærenda um undanþágu frá sundkennslu í X fyrir hönd barns þeirra, C, nemanda í 1. bekk X.  Gera kærendur þá kröfu að  hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kærendum veitt leyfi til að ákvarða þátttöku barns síns í skólasundi.  Í umsögn X er þess krafist að kröfu kærenda verði hafnað.  

 

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 3. apríl 2017, var óskað umsagnar skólastjóra X um kæruna, sem barst með bréfi, dags. 7. sama mánaðar.  Umsögnin var send til kærenda með tölvubréfi ráðuneytisins, dags. 3. maí 2017, og gefinn kostur á að koma að athugasemdum við umsögnina. Svar barst frá kærendum með tölvubréfi næsta dag, þess efnis að þau hefðu engu við þetta að bæta.  Með tölvubréfi ráðuneytisins til skólastjóra X, dags. 3. maí 2017, var óskað eftir að fá afhent þau tölvubréfasamskipti sem gengið höfðu á milli málsaðila vegna máls þessa og bárust þau frá skólastjóra með tölvupósti, dags. 9. sama mánaðar. Með tölvubréfi ráðuneytisins til kærenda þann 10. maí 2017 var kærendum gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum af því tilefni og bárust þær ráðuneytinu með tölvubréfi þann sama dag.

 

Málsatvik og málsástæður

I.

Fram kemur í kæru að kærð sé sú ákvörðun skólastjóra X, sem  skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hafi staðfest, um að neita barni kærenda, C, um undanþágu frá sundkennslu í X. C sé í 1. bekk í X og æfi sund af kappi. Sama dag og barnið sé á æfingu sé skólasund í síðasta tímanum. Beiðni kærenda um undanþágu frá sundkennslu þann dag hafi verið hafnað. Barnið sé flugsynt, lengra komið en börn á þess reki og æfi oftar en tímar í skólasundi séu. Kærendur búi [í nágrenni við skólann] og móðir C sé heima á þessum tíma til að taka á móti barninu. Þá séu kærendur bæði kennaramenntuð. Óska kærendur þess að ráðherra felli úr gildi úrskurð skólastjóra og veiti þeim leyfi til að ákvarða þátttöku C í skólasundi.

 

II.

Í umsögn skólastjóra X er gerð grein fyrir því að beiðni kærenda um undanþágu frá sundkennslu fyrir barn sitt hafi borist í desember 2016 og hafi þeirri beiðni verið hafnað með almennum rökum í fyrstu, til að byrja með í munnlegu samtali við móður, síðan skriflega í tölvupósti. Bent hafi verið á að óskynsamlegt teldist að veita leyfi frá lögbundinni kennslu vegna tómstundaiðkunar er nemendur væru svona ungir, en fordæmi væru fyrir slíku í grunnskólum þegar nemendur væru orðnir eldri ef tryggt væri að öll ákvæði um iðkun, þekkingu og leikni í því fagi sem um ræðir væru uppfyllt. Þannig væru dæmi um undanþágur þegar nemendur væru eldri og fengu þá afslátt af valgreinum á gagnfræðastigi grunnskólans vegna ástundunar mikils og krefjandi náms utan skólans. Jafnframt var vísað til fordæmis, en væri leyfið veitt yrði þannig skapað fordæmi og í kjölfarið kæmu fleiri beiðnir sem erfitt væri að hafna í ljósi fyrri ákvörðunar þar sem skólinn fengi fleiri fyrirspurnir af þessum toga á hverju ári og þyrfti að gæta samræmis. Kærendur hafi tekið þessum almennu rökum illa og þá hafi skólastjóri svarað með því að vísa í leiðbeinandi reglur laga um grunnskóla og aðalnámskrár grunnskóla og væri þannig ekki heimilt að verða við beiðni kærenda, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 91/2008, um grunnskóla, þar sem mælt sé fyrir um heimild skólastjóra til að veita undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein ef gild rök mæli með því. Ennfremur sé skólastjóra heimilt að viðurkenna nám utan grunnskóla sem jafngildi grunnskólanáms. Í 6. mgr. sömu greinar sé tilgreint að setja skuli viðmiðanir um undanþágur skv. þessari grein í aðalnámskrá grunnskóla, þar sem fram komi að skólastjóri veiti nemendum í 1. til 7. bekk í grunnskóla ekki undanþágu frá skólaíþróttum vegna íþróttaþjálfunar hjá íþróttafélagi. Í athugasemdum frá kærendum kemur fram að C taki þátt í metnaðarfullum sundæfingum þar sem markmiðin séu langtum háleitari en þau sem lögð séu til grundvallar í skólasundi. Miðað við áhugann hjá barninu þá geri kærendur ekki ráð fyrir öðru en því að það haldi áfram, strax í haust fjölgi æfingum og fyrirséð að sundkunnátta þess uppfylli áfram allar kröfur ríkisvaldsins og gott betur. Ástæðan fyrir undanþágubeiðninni sé einfaldlega sú að skólasund hafi truflandi áhrif á sundæfingu sem fari kannski fram nokkrum tímum síðar. Þess vegna vilji kærendur í framtíðinni fá frjálsa mætingu fyrir C í skólasundi að því gefnu að barnið æfi áfram sund af kappi.

 

Rökstuðningur niðurstöðu

I.

Í 1. mgr. 15. gr. laga um grunnskóla er kveðið á um að nemendum sé skylt að sækja grunnskóla, sbr. 3. gr. sömu laga.  Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. er skólastjóra heimilt að veita nemanda undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein ef gild rök mæla með því.  Enn fremur er skólastjóra heimilt að viðurkenna nám utan grunnskóla sem jafngildi grunnskólanáms. Sæki foreldrar skólaskylds barns um tímabundna undanþágu þess frá skólasókn í einstökum námsgreinum eða að öllu leyti, sbr. 4. mgr. sömu greinar, er skólastjóra heimilt að veita slíka undanþágu telji hann til þess gildar ástæður.  Foreldrar skulu þá sjá til þess að nemandinn vinni upp það sem hann kann að missa úr námi meðan á undanþágu stendur.  Samkvæmt 5. mgr. 15. gr. gilda ákvæði stjórnsýslulaga um ákvörðun um veitingu undanþágu eða synjun hennar, sbr. 3. og 4. mgr. sömu greinar.  Er slík ákvörðun kæranleg eftir fyrirmælum 47. gr. laga um grunnskóla. 

 

II.

Samkvæmt 24. gr. laga um grunnskóla setur ráðherra grunnskólum aðalnámskrá sem er endurskoðuð reglulega.  Í henni er m.a. kveðið nánar á um uppeldishlutverk grunnskólans og meginstefnu í kennslu og kennsluskipan í samræmi við hlutverk grunnskólans, sbr. 2. gr. laganna.  Í 24. gr. laganna er nánar fjallað um þá þætti sem leggja skal áherslu á í aðalnámskrá.  Samkvæmt 25. gr. skal í aðalnámskrá kveða á um meginmarkmið náms og kennslu, uppbyggingu og skipan náms, svo og hlutfallslega skiptingu tíma milli námssviða og námsgreina í grunnskóla.  Þess skal gætt að námið verði sem heildstæðast, en hver grunnskóli ákveður hvort námsgreinar og námssvið eru kennd aðgreind eða samþætt.  Í aðalnámskrá skal skilgreina þekkingar- og hæfniþætti á hverju námssviði.  Þá skulu nemendur eiga þess kost að uppfylla námsmarkmið einstakra námsgreina og námssviða með mismunandi hætti. Í aðalnámskrá skulu sett árangursviðmið um það hvenær nemandi telst hafa lokið einstökum námsgreinum eða námssviðum.  Einnig skulu sett ákvæði um inntak og skipulag náms í einstaka námsgreinum, þar á meðal skólaíþróttum.  Í 29. gr. laga um grunnskóla er kveðið á um að í hverjum grunnskóla skuli gefa út skólanámskrá og starfsáætlun, en skólastjóri er ábyrgur fyrir gerð þeirra og skal semja þær í samráði við kennara.  Skólanámskrá er nánari útfærsla á aðalnámskrá grunnskóla um markmið, inntak náms og námsmat, starfshætti og mat á árangri og gæðum skólastarfs.

 

III.

Samkvæmt 29. gr. laga um grunnskóla skal í hverjum grunnskóla gefa út skólanámskrá og starfsáætlun, en skólanámskrá er nánari útfærsla á aðalnámskrá grunnskóla um markmið, inntak náms og námsmat, starfshætti og mat á árangri og gæðum skólastarfs, en jafnframt gefur hún kost á að laga fyrirmæli aðalnámskrár að sérstöðu hvers skóla og staðbundnum aðstæðum.  Þannig setur aðalnámskrá skólum almenn viðmið en hver skóli hefur tækifæri til að útfæra þau nánar í skólanámskrá, bæði með tilliti til nemendahóps skólans og þeirra kennsluhátta sem skólinn aðhyllist.  Eins og kveðið er á um í almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla skal birta í skólanámskrá stefnu skólans og þau gildi sem hún grundvallast á og hvernig skólinn útfærir ýmis almenn og fagbundin markmið aðalnámskrár, skipulag kennslu og kennsluhætti. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið hafa skólastjórar grunnskóla rúmt svigrúm til að veita nemanda undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein, mæli gild rök með því.  Í kafla 16.1 í aðalnámskrá grunnskóla, sem fjallar um undanþágur frá skólasókn, kemur fram að gildar ástæður fyrir veitingu undanþágu geti t.d tengst þátttöku í landsliðsverkefnum á sviði íþrótta á unglingastigi, æskulýðsstarfi, ferðalögum fjölskyldu og sjálfboðastarfi. Í kafla 16.8 aðalnámskrár grunnskóla er m.a. tekið fram að unnt sé að nýta undanþáguheimildina fyrir nemendur sem hafa sýnt afburðaárangur á ákveðnu sviði, t.d. eru í yngri landsliðum í íþróttum eða í listnámi, samanber leiðbeinandi reglur fyrir skóla um meðferð slíkra mála, sem birtar eru í framangreindum kafla aðalnámskrár. Þar kemur m.a. fram að nemandi sem náð hefur framúrskarandi árangri í sundi hjá íþróttafélagi fær að öllu jöfnu einungis undanþágu frá skólasundi en ekki öðrum þáttum skólaíþrótta. Þá er tekið fram að skólastjóri veiti að öllu jöfnu einungis nemendum í 8.-10. bekk grunnskóla undanþágu frá skólaíþróttum, sem hafa náð framúrskarandi árangri í þeirri íþróttagrein sem þeir stunda, sem og að skólastjóri veiti nemendum í 1.-7. bekk grunnskóla ekki undanþágu frá skólaíþróttum vegna íþróttaþjálfunar hjá íþróttafélagi. Þannig hefur undanþáguheimildin ekki verið afmörkuð með nánari hætti í gildandi aðalnámskrá en skólastjórum einstakra grunnskóla falið svigrúm til mats og ákvörðunar í þessum málum að öðru leyti, eins og kveðið er á um í 15. gr. laga um grunnskóla og aðalnámskrá grunnskóla.  Það er mat ráðuneytisins, með hliðsjón af þeim réttarheimildum sem hin kærða ákvörðun byggir á og þeim áherslum sem þar eru nánar útfærðar, að hin kærða ákvörðun sé studd nægilega málefnalegum rökum og rúmist innan þess svigrúms sem skólastjórum er veitt að þessu leyti samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga um grunnskóla, að teknu tilliti til þeirra viðmiða sem kveðið er á um í gildandi aðalnámskrá. 

 

Samkvæmt öllu framansögðu skal hin kærða ákvörðun staðfest eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun skólastjóra X um synjun beiðni um undanþágu frá skólasundi fyrir C, sem tilkynnt var um í tölvubréfi til kæranda, dags. 9. desember 2016, er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum